Breytingastjórnun

Með skipulagðri breytingastjórnun og náinni samvinnu við æðstu stjórnendur stuðlum við að því að hagræðing og ný vinnubrögð festist í sessi. Við breytum stefnu í aðgerðir sem skila mælanlegum árangri fyrir fyrirtæki og stofnanir.

Hvenær á breytingastjórnun við ?

Flestar ákvarðanir í rekstri, hvort sem þær snúa að stefnu, skipulagi, mælikvörðum, ferlum eða innleiðingu tæknilausna, krefjast breytingastjórnunar. Því umfangsmeiri sem breytingarnar eru, því mikilvægara er að leggja áherslu á faglega innleiðingu.

Stærstu verkefnin, svo sem samrunar eða breytingar á viðskiptamódelum, krefjast markvissrar breytingastjórnunar til að undirbyggja árangur og lágmarka áhættu.

Kristján B. Einarsson og Lea Kristín Guðmundsdóttir að veita ráðgjöf og skoða eitthvað í tölvunni á meðan Thelma Kristín Kvaran horfir á. Allt auðvitað skemmtilega sviðsett fyrir ljósmyndarann

Góð breytingastjórnun skapar forskot

Með útsjónarsemi, þrautseigju og virkri þátttöku starfsfólks geta stjórnendur skapað fyrirtækinu samkeppnisforskot og ný tækifæri. Markviss stefna, menning breytinga og stöðug umbótavinna eru lykilforsenda þess að byggja upp sveigjanlegra og sterkara fyrirtæki.

Aðferðir, verkfæri, hæfni og reynsla

Undirbúningur sem tryggir árangur

Í breytingum er lykilatriði að velja réttar aðferðir og verkfæri hverju sinni. Mikilvægt er að stilla þau af eftir því sem verkefnið þróast og nýjar áskoranir koma upp. Með vönduðum undirbúningi í upphafi má hámarka ávinning og auka líkur á árangri.

Verkfæri sem virkja þátttöku

Við hjá Intellecta notum fjölbreytt verkfæri til að styðja breytingar: ATKAR, 8 skref Kotters, Lean/Agile, formleg stjórnskipulög, vinnustofur – og ekki síst ríkuleg samskipti. Með því að virkja sem flesta til þátttöku og ábyrgðar tryggjum við að breytingarnar nái fótfestu.

Samskipti sem minnka óvissu

Allar breytingar skapa óvissu. Því er mikilvægt að byggja upp traust, tryggja opin samskipti og draga úr óvissu eins fljótt og hægt er. Þriðji aðili getur oft aukið trúverðugleika, stuðlað að trausti og gert breytingaferlið farsælla.

Teikning: Fólk stendur við vegg með miðum að undirbúa
Teikning: Notendur að vinna í ferðavélum hlið við hlið

Starfsfólkið er lykillinn að árangri

Góð breytingastjórnun byggir á virkri þátttöku starfsfólks. Mikilvægt er að auka skilning á ástæðu og markmiði breytinga og taka á þegar hann skortir. Með því minnkar mótstaða, breytingar ganga hraðar fyrir sig og traust og starfsánægja aukast. Útkoman er betri nýting á tíma og fjármunum.

Aukinn hraði og auknar kröfur

Rekstur fyrirtækja þróast hraðar en nokkru sinni fyrr og kröfurnar aukast stöðugt. Þetta kallar á stjórnendur sem hafa skýra stefnu, öfluga breytingastjórnun og réttu verkfærin til að tryggja árangur í síbreytilegu umhverfi.

Vinnustofur í breytingastjórnun með leikrænu ívafi

Til að styðja við árangursríkar breytingar bjóðum við upp á vinnustofur sem sameina gagnvirkan leik og fræðslu. Stjórnendur læra að beita aðferðum breytingastjórnunar við ólíkar aðstæður, á meðan þeir keppa í skemmtilegum leik þar sem liðin keppast við að ná fyrst í mark.

Þessar vinnustofur henta bæði sem hluti af stærri verkefnum og sem sjálfstæð þjálfun sem styrkir stjórnendur í að leiða breytingar.

Teikning: Konur á vinnufundi að setja miða upp á vegg og ferðatölva á borðinu