Reykjavíkurborg

Sviðsstjóri menningar-, íþrótta- og tómstundasviðs

Reykjavíkurborg auglýsir laust til umsóknar starf sviðsstjóra menningar-, íþrótta- og tómstundasviðs. 

Menningar-, íþrótta- og tómstundasvið er nýtt sameiginlegt svið innan stjórnkerfis Reykjavíkurborgar sem er í undirbúningi en borgarráð hefur samþykkt að sameina menningar- og ferðamálasvið og íþrótta- og tómstundasvið í eitt svið. Jafnframt að málefni ferðaþjónustu verða færð undir forsætisnefnd. Skipulag sviðsins er í mótun og mun nýr sviðsstjóri koma að undirbúningi við skipulag þess. Ábyrgðarsvið sviðsstjóra menningar-, íþrótta- og tómstundasviðs getur því tekið breytingum þar sem endanleg uppbygging sviðsins liggur ekki fyrir. 

Fyrirhugað er að nýtt sameiginlegt svið beri ábyrgð á skipulagi, rekstri og þjónustu menningarstofnana, íþróttamannvirkja, hátíða og margvíslegum stuðningi og samstarfi við menningar-, íþrótta- og tómstundalífið. Launakjör sviðsstjóra heyra undir kjaraákvörðun kjaranefndar Reykjavíkurborgar. Sviðsstjóri heyrir beint undir borgarstjóra og um störf hans gilda reglur um réttindi og skyldur stjórnenda hjá Reykjavíkurborg. Ráðið er af borgarráði í starf sviðsstjóra til fimm ára. 

Ábyrgðarsvið 

 • Ábyrgð og dagleg yfirstjórn og samhæfing þjónustu og starfskrafta menningar-, íþrótta- og tómstundasviðs. 
 • Ábyrgð á rekstri og stjórnsýslu sviðsins, þ.m.t. fjármálum og starfsmannamálum. 
 • Leiðir þróun og uppbyggingu nýs sviðs.
 • Undirbúningur mála fyrir menningar-, íþrótta- og tómstundaráð og ábyrgð og eftirfylgni með ákvörðunum ráðsins. 
 • Stefnumótun í menningar-, íþrótta- og tómstundamálum í samvinnu við menningar-, íþrótta- og tómstundaráð. 
 • Forysta við þróun og innleiðingu nýrra hugmynda og úrræða í menningar-, íþrótta- og tómstundamálum ásamt mati á árangri og eftirliti. 
 • Ábyrgð á starfs- og fjárhagsáætlun ásamt annarri áætlanagerð fyrir menningar-, íþrótta- og tómstundasvið. 
 • Samráð við Bandalag íslenskra listamanna, menningarsamtök, ÍBR og íþróttahreyfinguna og aðra hagsmunaaðila um menningar-, íþrótta- og tómstundamál. 
 • Samstarf við opinbera aðila í menningar-, íþrótta- og tómstundamálum innanlands og utan. 
 • Tilheyrir yfirstjórn og neyðarstjórn Reykjavíkurborgar. 

Menntunar- og hæfniskröfur 
 • Háskólamenntun sem nýtist í starfi, framhaldsmenntun skilyrði. 
 • Þekking og reynsla af málaflokkum menningar og/eða íþrótta. 
 • Leiðtogahæfileikar og farsæl stjórnunarreynsla ásamt reynslu af því að leiða breytingar. 
 • Þekking og reynsla af rekstri og mannaforráðum. 
 • Þekking og reynsla af opinberri stjórnsýslu, stefnumótunarvinnu, þjónustustarfsemi og áætlunargerð. 
 • Framsýni, metnaður, frumkvæði, skipulagshæfileikar og sjálfstæð vinnubrögð. 
 • Þekking og reynsla af samningagerð og undirbúningi samninga. 
 • Lipurð og hæfni í mannlegum samskiptum. 
 • Hæfni til að tjá sig í ræðu og riti á íslensku og ensku. 
 • Kunnátta í öðrum tungumálum er kostur. 

Umsóknarfrestur er til og með 25. ágúst 2022. 

Umsjón með ráðningu hefur ráðningastofan Intellecta. Umsókn þarf að fylgja ítarleg starfsferilskrá og kynningarbréf. Skipuð verður 3ja manna hæfisnefnd sem mun vinna úr öllum umsóknum í samráði við Intellecta. Nánari upplýsingar um starfið veita Thelma Kristín Kvaran ([email protected]) og Lóa Birna Birgisdóttir sviðsstjóri mannauðs- og starfsumhverfissviðs Reykjavíkurborgar ([email protected]). 

Öllum umsóknum verður svarað að ráðningu lokinni.